Tilhlökkun

Í kvöldroða nætur læt ég hugann reika.

Skoppa á milli himintungla og skærra stjarna.

Sæki þangað ljóðið um lífið ljúfa,

og bíð eftir þér.

 


Sunnanvindur

Langt sunnan úr hafi, berst hann mér um miðjan vetur.

Kyssir mig á vanga og yljar mér um hjartarætur.

Færir mér von um skemmtilega daga.


Eilífðarblóm

Lítið blóm baðað í tunglsljósi nætur.

Opnar krónublöð sín og færir mér angan lífs míns.

Döggin drýpur frá hjarta þess svo grámi hversdagsleikans glitrar.

Sál mín dansar alsæl.

 


Himintungl

Hálfur máni hékk á himni og glotti

yfir kyrrlátum morgni.

Sól skein úr austri svo frostrósir dönsuðu undir fótum mínum.

Örlítill söknuður í hjarta . . .

á fallegum degi í yndislegu lífi.


Haust

Lítið lauf fýkur í faðm mér og færir mér litagleði lífsins.

Venjulegur miðvikudagur í árlegri hausttíð er óvenju fagur  . . . 

því ég tek eftir andadrætti hans.


hssssss . . .

Hvísla ég til þín haustvindur,

ljóði frá hjarta mínu.

Loksins, loksins,

veit ég nákvæmlega hvað ég vil.


Ótti

Orðin særa og öskrin stinga

en svo dvínar hljómurinn

og hverfur.

Máttur þagnarinnar svíður

að eilífu

og skilur eftir ótal spurningar.


Ást

Hvert tár sem ég felli er þér ætlað.

Þau tjá þér þrár mínar og vonir,

svo þú getir baðað þig í ást minni.


Guð

Ef hefði ég vængi, flygi ég til þín.

Safnaði saman tárum stjarnanna og færði þér.

Þú svo fjarlægur og veist vart af mér,

enda er minn staður bara hér.


Hamingja

Hún valhoppaði allt í kringum mig og brosti.

Sólrík eins og sumarið færði hún mér gleði.

Fiðrildi lífs míns.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband