Færsluflokkur: Bloggar

Vor

Við hljómfagran fuglasöng, teygja hlýir geislar sólar sig inn um gluggann og kitla vitund mína.

Útsprungnir krókusar fagna andvara vorsins og lítil fluga suðar

Yndislegt að vera til.

                                                                                                    


Undur veraldar

Eftirvæntingin lýsti upp eldhúsið er kom að því að sleikja að innan skálina.

Klístraðir fingur og ilmur af súkkulaði blandað vanillu.

Við bökuðum gleðimuffur.

Saman, þú og ég.


Áfangi

Með vor í huga en klæddar fyrir vetur, héldum við af stað fullar þrautseigju og þolinmæði.

Ég leiddi hundinn og hún fagurbleikan fák sinn.

Aftur og aftur og aftur . . . þar til hún náði því og hjólaði alla leið heim með glampa í augum, roða í kinnum og heimsins fallegasta bros á vörum.

                                                                                                                        

 


Stormsveipur værðar

Í sama augnabliki og Vanda flaug yfir Hafmeyjarlund með Pétri, lokuðust augnlokin á lítilli hnátu.  ´

Hinumegin við vegginn heyrðist hlátur og gleði frá ósamstæðum unglingum sem í augnabliki óveðurs tengdust systkinaböndum og héldu vitund minni vakandi.

Kóngur lá á gólfi og prins malaði til fóta.

Í glugga flökti kertalogi í gylltri krukku og dansaði við drungalegan vetrarvindinn.  Ilm af sætri vanillu lagði að vitum mínum og leiddi mig ljúflega í átt að draumum lífs míns.

Yndisleg stund.

                                                                                                      


Vorblær

Lítill og hlédrægur gægðist hann inn um glugga minn. 

Sendi inn yl og hlýju svo glitruðu allar rykagnir.  Ég naut hans í sunnudagskyrrðinni og fylltist krafti og tilhlökkun.

Tilhlökkun yfir að fá hans frekar notið.


Gæða-kvöð

Í náttslopp undir úlpunni og með loðhúfu á höfði, leiddi ég lubbalegan kónginn eftir götunni.  Augnlokin voru þung og hugurinn hvíldi enn í hlýju rúmi er þessi stuttfætti ferfætlingur kannaði hvern krók og kima.

Skvetti af sér eftir kúnstarinnar reglu hér og þar.

Húsin sváfu og vindurinn naut sín í morgunsárinu.  Mildir regndropar drupu niður kinnar mínar og hresstu mig við svo ég mundi eftir nýlöguðu kaffi og fréttablaði sem beið mín á eldhúsborðinu.

Lífið væri öðruvísi án hundsins.

Elvis lifi !

                                                                                          


Hvítir hrafnar

Gráleitur himinn og snævaþakin jörð renna saman.  Hversdagsleikinn yfirgnæfir og langur vinnudagur varla líður.

Löngunin lifnar við, er hvítklæddur engill birtist og dansar við nornir og drauga í æskuljóma lífsins. 

Dansar sig inn að hjarta mínu svo draumkenndar sýnir um litríki sumarsins vakna.  Hreyfla við sofandi vitund minni og leiða mig áfram.

Mikið væri gaman að geta bara leikið sér með þér litli engill.

                                                                  


Brosið "mitt"

Þótt himinn og haf snúist gegn mér og heimurinn allur, þá leynist þar lítið ljúft bros sem alltaf vekur hjá mér gleði.

Hvernig er hægt annað en að hlakka til að vakna á morgnana ?

                                                                                 


Sátt

Í rökkrinu ríkti kærkomin kyrrð. 

Rúður voru snævaþaktar og vindurinn lék sér í vetrarríki sínu.

Ég kom mér notalega fyrir undir ullarteppi með hvíta bók í kjöltu.  Innihald hennar hljómaði fullkomlega með kaffibolla, súkkulaðimola og við ljúft mal kattarins.

Í kertaljósinu tindruðu appelsínugul augu hans og störðu á mig værðarlega er ég leit upp frá litlu ljóði um ástina, hugsandi, en botnaði ekki neitt í neinu.

Fann lífið renna ljúflega um æðar mínar.

                                                         

 


Með tærnar í himnaríki

Næðistund með sjálfri mér átti ég við hafið.

Með tærnar í sandinum hlustaði ég á öldurnar hljóma í æðum.  Andaði að mér ferskleika náttúru og hugleiddi lífið.

Þar komst ég næst Guði og var þó ekki ein.

Jafnvel þá voru Þau hjá mér.

Í hjarta, huga og fyrirrúmi.

tær 

                                                      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband